1. Forsíða
  2. Dreifibréf - 23. september 2016: Gildissvið fagráðs eineltismála í grunnskólum

Dreifibréf - 23. september 2016: Gildissvið fagráðs eineltismála í grunnskólum

Fagráð eineltismála í grunnskólum var fyrst skipað af mennta- og menningarmálaráðherra í mars 2012 og á sama tíma staðfesti ráðherra verklagsreglur um starfsemi fagráðsins í samræmi við reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum. Í ljósi reynslunnar af störfum fagráðsins var talið eðlilegt að endurskoða verklagsreglurnar og að höfðu samráði við hagsmunaaðila voru nýjar endurskoðaðar verklagsreglur nr. 465/2016 undirritaðar af ráðherra 17. maí 2016. 

Meðal helstu breytinga má nefna að fleiri aðilar í skólasamfélaginu en foreldrar og skólar geta nú óskað eftir aðkomu fagráðsins. Bæst hafa við nemendur, starfsfólk skóla, auk annarra aðila sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi sem hefur stoð í grunnskólalögum. Þessir aðilar geta óskað eftir aðkomu fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir aðkomu starfsfólks skóla og skólaþjónustu sveitarfélaga. Sömu aðilar geta jafnframt vísað máli til fagráðsins vegna meints aðgerðaleysis skóla eða sveitarfélags.

Að gefnu tilefni þykir ástæða til að skýra nánar gildissvið verklagsreglnanna hvað varðar þá aðila sem geta óskað eftir aðkomu fagráðs. Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 með síðari breytingum segir í 30. gr. að ráðherra sé heimilt að mæla nánar fyrir um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í reglugerð og samkvæmt lagaákvæðinu skal í reglugerðinni m.a. mælt fyrir um starfrækslu fagráðs á vegum ráðuneytisins er verði ráðgefandi í eineltismálum. Með framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum var komið til móts við kröfur frá skólasamfélaginu um markvissari umgjörð um meðferð eineltismála í grunnskólum. Með breytingu á verklagsreglum frá því fyrr á þessu ári er nánar tilgreint hverjir geta vísað málum til fagráðsins, en í öllum tilvikum er þar um að ræða aðila sem koma að starfsemi sem á sér stoð í grunnskólalögum. Ákvæðið nær til allrar starfsemi á vegum grunnskóla. Auk þess nær ákvæðið m.a. til starfsemi frístundaheimila fyrir nemendur í yngri árgöngum grunnskóla óháð rekstrarformi, félags- og tómstundastarfs sem fram fer sem hluti af starfsemi grunnskóla, starfsemi skólabúða þar sem nemendur dvelja um stundarsakir og vettvangsferðir og skólaferðalög á vegum skólans eða foreldra og allrar annarrar starfsemi á vegum grunnskóla. Fagráð eineltismála í grunnskólum nær hins vegar ekki til starfsemi sem fer eftir öðrum lögum, t.d. æskulýðs- og íþróttalögum.

Fagráðið starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis en Menntamálastofnun annast umsýslu þess. Starfsmaður þess er Erla Ósk Guðjónsdóttir, [email protected]