1. Forsíða
  2. Að vökva lestrarblómin - eða láta þau visna

Að vökva lestrarblómin - eða láta þau visna

Börn að lesa
Börn að lesa

Margir kennarar verða vitni að því að hausti að lestrarfærni nemenda hefur hrakað yfir sumarmánuðina og nemendum farið aftur í lestri. Einkum er hætta á þessu þegar nemendur hafa glímt við lestrarerfiðleika en þá getur bakslagið jafnvel orðið það mikið að lestrarfærni að hausti (í atkvæðum talið) standi á sama stað og hún var í byrjun árs hjá nemandanum. Það þýðir í raun að heil önn hefur tapast. Til að koma í veg fyrir þetta er einfalt ráð: Að börnin lesi að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku yfir sumartímann í u.þ.b. 15 mínútur í senn. Tilmæli frá kennara vega þungt og margir kennarar nesta nemendur sína með fyrirmælum um að lesa heima yfir sumartímann. Enn aðrir setja upp umbunarkerfi og í sumum skólum eru lestrarkeppnir milli bekkja til að ýta undir sumarlestur.

Í lestrarfræðum er gjarnan talað um Mattheusaráhrifin en það hugtak er notað til að skýra hvað á sér stað þegar börn ná ekki tökum á lestrinum í byrjun. Þá er hætta á að bilið milli þeirra og barna sem ekki glíma við erfiðleika eigi eftir að breikka. Þarna er verið að vísa í söguna um ríka manninn í Mattheusarguðspjalli en þar kemur fram að þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari. Þeir sem ekki eru í erfileikum halda áfram á sinni braut og taka stöðugum framförum í lestri, hins vegar er hætta á að lestrarerfiðleikarnir hægi á framförum hjá þeim sem við þá glíma. Ef ekki er veittur góður stuðningur frá upphafi er hætta á að barnið upplifi vanmátt og verði smám saman afhuga lestri. Það dregur úr lestrarþjálfun, barnið lendir í vítahring neikvæðra viðhorfa og tekur litlum framförum. Bóklestur eflir orðaforða og bætir málskilning og því dragast þessi börn einnig aftur úr hvað varðar málþroska.

Ég hvet foreldra allra grunnskólabarna til að huga að því að lestrarblómin fái áfram næringu í sumar þannig að þau geti haldið áfram að vaxa og dafna. Notið ykkur frábæra þjónustu almenningsbókasafna eða leitið til umsjónarkennara barna ykkar um heppilegt lesefni fyrir sumarið. Komum þeim boðum til barnanna okkar að það sé gaman að lesa skemmtilegar bækur og að lestrarstundir séu gæðastundir.

Bjartey Sigurðardóttir, læsisráðgjafi hjá Menntamálastofnun

skrifað 30. MAí. 2016.