1. Forsíða
  2. Er læsisverkefni á réttri leið?

Er læsisverkefni á réttri leið?

Þjóðarátak um læsi hófst á síðasta ári með því að öll sveitarfélög landsins skrifuðu undir yfirlýsingu um að efla læsi grunnskólabarna. Hluti af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um þetta verkefni var að ríkið myndi leggja fjármagn til verkefnisins og var Menntamálastofnun falið að sjá um framkvæmd þess. Almenn sátt var um að markvissra aðgerða væri þörf til að snúa við þróun sem sýnir að lestrargetu íslenskra ungmenna fer hrakandi. Er nú svo komið að nær þriðjungur íslenskra drengja telst ekki geta ,,lesið sér til gagns“ við lok grunnskóla samkvæmt mælingum PISA-rannsóknar.

Þann 1. október á síðasta ári tók til starfa teymi sérfræðinga sem Menntamálastofnun réð til að vinna að framgangi verkefnisins. Teymið byggði á aðgerðaáætlun sem starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis vann og byggir á gagnreyndum aðferðum þjóða sem hafa náð góðum árangri í að efla lestrarkunnáttu.

Í starfi teymisins hefur verið lögð áhersla á að undirbúa vel ráðgjöf til skóla, sveitarfélaga og foreldra. Mun ráðgjöfin byggjast á áreiðanlegu mati á núverandi stöðu, leiðbeiningum um hvernig nýta megi mælingar til að fylgjast með framgangi verkefnisins og endurbótum á því. Í framtíðinni mun ráðgjöfin að stórum hluta byggjast á niðurstöðum stöðuprófa í læsi fyrir 1.-10. bekk sem taka til lesfimi, lesskilnings og ritunar. Prófin munu bæta möguleika kennara til að meta stöðu nemenda og koma til móts við ólíkar þarfir þeirra.

Læsisteymið hefur komið miklu í verk á þeim ríflega átta mánuðum sem það hefur starfað. Sendar hafa verið upplýsingar er varða forspá til allra grunnskóla um stöðu nemenda í grunnskólum í lestri. Í kjölfarið hefur verið veitt ráðgjöf til 14 sveitarfélaga og búið er að ákveða tíma til ráðgjafar hjá 17 sveitarfélögum til viðbótar nú í haust. Jafnframt hefur teymið verið með fræðsluerindi fyrir fræðslustjóra og skólastjórnendur á tólf stöðum á vordögum, mun það einnig kynna starf sitt á kennaraþingum víðsvegar um land nú í haust. Ekki var gert ráð fyrir að ráðgjöf á vegum læsisteymisins yrði meginþunginn í starfinu fyrr en lokið væri gerð hluta stöðuprófa í læsi en fyrsti hluti þeirra verður tilbúinn til notkunar á haustmánuðum. Ráðgjöf til sveitarfélaga er því á áætlun. Gerð kynningarefnis og vefsíðu um læsi er einnig á áætlun og er gert ráð fyrir að ný vefsíða verði opnuð nú í haust.

Stendur öllum til boða

Þegar sérfræðingar voru ráðnir til starfa í læsisteymi var lögð áhersla á að fá til starfa kennara sem höfðu mikla reynslu af skólastarfi og lestrarmálum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum komu upp nokkrir erfiðleikar sem leiddu til þess að hluti læsisráðgjafa hugðist hætta störfum nú í vor. Tókst að greiða úr þessum vanda með ásættanlegum hætti og nú er staðan sú að þrír læsisráðgjafar hafa dregið uppsagnir sínar til baka. Tveir læsisráðgjafar munu hverfa aftur til fyrri starfa og munu þeir koma til með að eiga í samstarfi við læsisteymið á vettvangi síns sveitarfélags. Ekki er komin niðurstaða varðandi stöðu teymisstjóra. Þegar hefur verið ráðið í eina stöðuna sem losnaði og fleiri stöður munu verða auglýstar á næstunni. Kemur til greina að einhverjir nýrra starfsmanna verði staðsettir á landsbyggðinni.

Rekstrarkostnaður grunnskóla nemur nú nærri 60 milljörðum króna á ári. Í því samhengi telst það varla ofrausn að 1% af þeirri upphæð sé lögð í þróunarkostnað sem dreifist á fimm ár. Sveitarfélög hafa reyndar tekið því fagnandi að ríkið hefur lagt hönd á plóginn því möguleikar þeirra til að styðja við þróunarstarf í sínum grunnskólum eru mismunandi. Ráðgjöf læsisteymis MMS stendur öllum sveitarfélögum til boða. Verkefnið er umfangsmikið og markmiðin háleit og ljóst er að það tekur tíma.

Grein birt í Fréttablaðinu 28. júní 2016

Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar. 

skrifað 28. JúN. 2016.