1. Forsíða
  2. Fjölsótt ráðstefna á Akureyri um læsi í skapandi skólastarfi

Fjölsótt ráðstefna á Akureyri um læsi í skapandi skólastarfi

Það var líf og fjör á Akureyri um helgina þegar yfir 300 kennarar og annað skólafólk sótti ráðstefnuna Læsi í skapandi skólastarfi sem haldin var á vegum Menntamálastofnunar og Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.

Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar flutti ávarp og Eliza Reid forsetafrú gaf skemmtilegan tón fyrir daginn þegar hún nýtti tæknina og setti ráðstefnuna heiman frá sér.

Kennarar og annað fagfólk bauð upp á málstofuerindi og vinnustofur. Sérstaklega var horft til þess að umfjöllunarefni ráðstefnunnar, læsi í skapandi skólastarfi með áherslu á ritun, tjáningu og stafræna miðlun, hefði hagnýtt gildi fyrir þátttakendur.

Aðalfyrirlesarar voru Dr. Jackie Marsh, prófessor við Sheffield háskóla og Dr. Rannveig Oddsdóttir, sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri. Einnig kynntu Sigyn Blöndal og Sindri Bergmann dagskrárgerðarfólk á RÚV, samstarfsverkefnið SÖGUR sem Menntamálastofnun, KrakkaRÚV, SÍUNG og samtökin Sögur – samtök um barnamenningu – stóðu að. Þau Sigyn og Sindri sýndu m.a. myndbrot frá Verðlaunahátíð barnanna þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi Sögusteininn – heiðursverðlaun IBBY. Það var falleg athöfn sem snerti hjörtu ráðstefnugesta enda margir sem tengja lestur í æsku við Jón Odd og Jón Bjarna og fleiri bækur Guðrúnar.

          

          

          

 

skrifað 18. SEP. 2018.