1. Forsíða
  2. Mikill áhugi fyrir forritunarverkefninu Kóðinn 1.0

Mikill áhugi fyrir forritunarverkefninu Kóðinn 1.0

Eins og sjá má þá er tölvan afar lítil.
Eins og sjá má þá er tölvan afar lítil.

Tíu þúsund smátölvur eru nú tilbúnar til afhendingar í lagerhúsnæði Menntamálastofnunar við Víkurhvarf vegna forritunarverkefnisins Kóðinn 1.0 sem kynnt var í byrjun mánaðarins og er í umsjón Menntamálastofnunar, RÚV, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og samstarfsaðila í Samtökum iðnaðarins.

Markmið verkefnisins er að gera börnum í 6. og 7. bekk grunnskóla kleift að kynnast forritun frá fyrstu hendi með því að dreifa BBC micro:bit tölvu ókeypis til allra þeirra skóla sem skrá sig í gegnum heimasíðu Menntamálastofnunar eða á síðu verkefnisins á KrakkaRÚV.

Tölvum dreift í skólana á næstunni

Þegar þetta er skrifað er búið að sækja um tölvur fyrir rúmlega sex þúsund nemendur og verður tölvunum dreift til skólanna á næstunni. Það verður strax hægt að nálgast mikið magn  kennsluefnis á ensku í gegnum heimasíðu BBC og einnig er verið að leggja lokahönd á kennslumyndbönd á íslensku sem birt verða á síðu KrakkaRÚV og heimasíðu Menntamálastofnunar um leið og þau eru tilbúin. Leiðbeiningar fyrir kennara eru líka komnar inn á heimasíðu stofnunarinnar og þar geta kennarar skoðað verkefni og sent inn ábendingar til verkefnishópsins um hvað gengur vel og hvað má betur fara. Kóðað til góðs er stuðningsprógramm fyrir kennara þessu tengt þar sem sérfræðingar frá Samtökum iðnaðarins aðstoða viðkomandi kennara við að kynna sér forritunarviðmótið og skoða ýmsa möguleika á verkefnum og fleira.

Tölvunum er dreift í skólana þeim að kostnaðarlausu, eins og öðrum námsgögnum frá Menntamálastofnun, og eru þær utan kvóta. Stuðningur við kennara í gegnum "Kóðað til góðs" prógrammið er þeim líka að kostnaðarlausu. Ýmislegt fleira er jafnframt í undirbúningi sem mun nýtast kennurum í verkefninu.

Viljum viðhorfsbreytingu

Með þátttöku í verkefninu vill Menntamálastofnun stuðla enn frekar að viðhorfsbreytingu í garð forritunar. Það er í raun enginn galdur á bakvið forritun, heldur snýst hún um vinnubrögð og rökhugsun. Með því að öðlast grundvallarskilning á forritun er hægt að vonast til þess að börn breytist úr neytendum yfir í notendur. Það er óneitanlega skemmtilegri framtíðarsýn að hugsa sér manneskju vinna í tölvunni frekar en að vera í tölvunni. Menntamálastofnun er í sambandi við Microbit Foundation vegna árangursmælinga fyrir verkefnið og mun vera í stöðugu sambandi við skólana varðandi upplýsingar um upplifun nemenda og kennara.

Það eru fyrst og fremst nemendur og kennarar sem græða á því að fá micro:bit smátölvurnar. Þær taka mjög lítið pláss, bjóða upp á ótal marga möguleika og þegar er til mikið  kennsluefni sem auðveldar notkun þeirra í skólunum. Tölvurnar eru líka það meðfærilegar að börnin ættu ekki að eiga í neinum vandræðum með að fara með þær heim til að prófa sig áfram í forritun á eigin spýtur, eða með aðstoð frá fjölskyldumeðlimum.

Það er einlæg von Menntamálastofnunar að þetta verkefni sé bara byrjunin á því að auka farsæld og ánægju nemenda í grunnskólum landsins varðandi upplýsingatækni og forritunarkunnáttu.

Frá því verkefninu var ýtt úr vör fyrr í mánuðinum.
Frá því verkefninu var ýtt úr vör fyrr í mánuðinum.
skrifað 17. OKT. 2016.