1. Forsíða
  2. PISA-skýrslan kemur út 6. desember

PISA-skýrslan kemur út 6. desember

Þriðjudaginn 6. desember verður gefin út PISA skýrsla fyrir 2015 og verða niðurstöður fyrir Ísland þá kynntar. Þetta var í sjötta skiptið sem Ísland tekur þátt í rannsókninni sem er á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD.  Menntamálastofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 

PISA er skammstöfun fyrir enska heiti rannsóknarinnar Programme for International Student Assessment. Könnunin fer fram í 72 löndum og árið 2015 tók yfir hálf milljón nemenda þátt í PISA.

Í PISA er lagt mat á hversu vel nemendur hafa tileinkað sér þekkingu og hæfni við lok grunnskóla sem þeir þurfa á að halda í nútíma samfélagi. Þá er ekki einungis metið hvort nemendur geta rifjað upp þekkingu úr skólanum heldur hvort þeir geti nýtt þekkinguna við nýjar aðstæður.

Sviðin þrjú sem OECD leggur áherslu á með PISA eru lesskilningur, læsi á stærðfræði og læsi á náttúruvísindi. Í PISA 2015 var læsi á náttúruvísindi gefið mest vægi en læsi á stærðfræði og lesskilningur var jafnframt metið. Einnig var metin færni nemenda í að leita lausna í samvinnu við aðra (e. collaborative problem solving) en niðurstöður þessa mats verða birtar í nóvember 2017.

PISA er langtímarannsókn sem staðið hefur yfir frá árinu 1998 og fjölmargir aðilar, þar á meðal sérfræðingar í lestri, stærðfræði og náttúrufræði, hafa komið að undirbúningi og framkvæmd verksins. Ári fyrir hvert próf er haldið forpróf þar sem efni prófs og framkvæmd eru prufukeyrð.

Lesa má nánar um PISA rannsóknina, framkvæmd hennar og undirbúning á síðu OECD

skrifað 05. DES. 2016.