1. Forsíða
  2. Samræmdum könnunarprófum í 7. bekk lokið

Samræmdum könnunarprófum í 7. bekk lokið

Samræmdum könnunarprófum í íslensku og stærðfræði í 7. bekk er lokið. Um það bil 4.100 nemendur þreyttu hvort próf.

Framkvæmd prófanna gekk vel og fáir hnökrar komu upp. Atvikin voru leyst í góðu samstarfi Menntamálastofnunar og umræddra skóla. Í tveimur skólum varð tímabundin truflun á netsambandi og í einstaka tilvikum bilaði tölva eða heyrnartól hjá nemanda. Þá bárust nokkrar fyrirspurnir vegna nemenda sem nýlega skiptu um skóla og vantaði prófkóða. Í öllum tilvikum tókst að leysa vandamálin farsællega á skömmum tíma.

Tíu manna aðgerðastjórn Menntamálastofnunar var til taks á prófatímanum í gær og í morgun, til að fylgjast með framkvæmdinni og taka við fyrirspurnum frá skólunum. Fá erindi bárust aðgerðastjórninni, sem er til marks um að skólarnir hafi undirbúið framkvæmdina vel. Fjöldi fyrirspurna var sambærilegur því sem tíðkaðist fyrir tíma rafrænnar fyrirlagnar, þegar pappírspróf voru lögð fyrir nemendur.

Á fimmtudag og föstudag í næstu viku þreyta nemendur í 4. bekk samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði. Sá hópur er einn stærsti fæðingaárgangur undanfarinna áratuga og er þá búist við allt að 4.700 nemendum í próf. Undirbúningur Menntamálastofnunar tekur mið af þeirri staðreynd.

Menntamálastofnun þakkar kærlega fyrir samstarfið þessa tvo fyrstu daga.

skrifað 21. SEP. 2018.