1. Forsíða
  2. Samræmt könnunarpróf í stærðfræði lagt fyrir eftir lausn á tæknilegum vanda

Samræmt könnunarpróf í stærðfræði lagt fyrir eftir lausn á tæknilegum vanda

Menntamálastofnun hefur í dag átt fund með þjónustuaðila rafræns prófakerfis fyrir samræmd könnunarpróf. Á fundinum var farið yfir þau tæknilegu vandamál sem upp komu við fyrirlögn samræmdra könnunarprófa í morgun. Telur þjónustuaðilinn fullvíst að lausn á vandanum sé fundin og að prófakerfið ráði við álag vegna fyrirlagnar samræmdra prófa. Munu samræmd könnunarpróf í stærðfræði og ensku því verða lögð fyrir samkvæmt áætlun á fimmtudag og föstudag.

Forstjóri Menntamálastofnunar átti í dag fund með mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúum ráðuneytisins þar sem farið var yfir þá stöðu sem nú er uppi vegna samræmds könnunarprófs í íslensku. Mun ráðuneytið boða þá aðila sem málið snertir til fundar í næstu viku þar sem farið verður yfir mögulega kosti. Verður áhersla lögð á að nemendur njóti alls vafa og að þær aðstæður sem uppi voru við próftöku í morgun bitni ekki á þeim.

Menntamálastofnun harmar þau mistök sem urðu við fyrirlögn íslenskuprófsins í morgun og biður nemendur og skóla afsökunar á þeim miklu óþægindum sem þeir urðu fyrir.

skrifað 07. MAR. 2018.