1. Forsíða
  2. Skólaheimsóknir ritstjóra Menntamálastofnunar

Skólaheimsóknir ritstjóra Menntamálastofnunar

Í byrjun árs 2018 var tekið upp á þeirri nýjung að heimsækja skóla um land allt með skipulögðum hætti. Nú á vormisseri munu ritstjórar heimsækja 42 skóla um allt land og er markmiðið að allir grunnskólar landsins verði heimsóttir á næstu 2 árum. Er þetta liður í því að auka enn frekar samstarf og samskipti við skóla og kennara. Ritstjórar hafa rætt við kennara um námsefni, kennsluhætti, hvernig námsefnið hefur nýst og hvað megi betur fara. Heimsóknir þessar hafa nýst ritstjórum afar vel í sínu starfi og hefur verið lærdómsríkt að heyra af sjónarmiðum kennara og nemenda og öllu því ótrúlega fjölbreytta starfi sem fram fer í skólum landsins.

Menntamálastofnun hefur á boðstólnum um það bil 700 titla sem árlega er dreift í 560.000 eintökum til 183 grunnskóla. Sá fjöldi sem kemur út árlega er breytilegur en að jafnaði koma út 25 - 40 nýir titlar á hverju ári. Námsefni stofnunarinnar er ekki selt heldur dreift til skóla að kostnaðarlausu. Fram til þessa hefur nýtt námsefni verið gefið út yfir allt árið en ákveðið var að breyta því á síðasta ári. Hér eftir verða tveir árlegir útgáfudagar, annar að vori og hinn að hausti. Sá fyrsti verður 18. apríl næstkomandi og verður Menntamálastofnun með opið hús að því tilefni.

Skráning á viðburð

 

skrifað 17. APR. 2018.