1. Forsíða
  2. Skólastig
  3. Framhaldsfræðsla
  4. Leiðbeiningar um gerð umsókna vegna viðurkenningar fræðsluaðila

Leiðbeiningar um gerð umsókna vegna viðurkenningar fræðsluaðila

Viðurkenningar einkaskóla og staðfestingar þjónustusamninga – tölvupóstur á [email protected]

Samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 skal félags- og vinnumarkaðsráðherra, eða aðili sem hann felur það verkefni, veita fræðsluaðilum viðurkenningu til þess að annast framhaldsfræðslu. Í slíkri viðurkenningu felst staðfesting á því að starfsemi fræðsluaðila uppfylli almenn skilyrði laganna og reglna sem settar eru með stoð í þeim.

Leiðbeiningar

Eftirfarandi leiðbeiningar lýsa þeim upplýsingum sem fræðsluaðilar þurfa að veita til að geta hlotið viðurkenningu ráðuneytisins til að annast framhaldsfræðslu skv. ákvæðum laga nr. 27/2010 og reglugerðar nr. 1163/2011. Við afgreiðslu umsókna er gengið úr skugga um að starfsemi viðkomandi fræðsluaðila uppfylli einstaka þætti krafnanna. Umsækjendur geta haft leiðbeiningarnar til hliðsjónar við samningu umsóknar. 

Viðurkenning er veitt á grundvelli umsóknar sem Menntamálastofnun berst frá eiganda eða stjórn fræðsluaðila. Með umsókn skal leggja fram eftirfarandi gögn eða upplýsingar:

  • 1. Upplýsingar um umsækjanda

    Nafn og kennitölu umsækjanda sem skal vera að forminu til sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða starfa samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Viðurkenning er gefin út á nafn og kennitölu umsækjanda.

  • 2. Meginmarkmið

    Lýsing á meginmarkmiðum í starfsemi umsækjanda sem verður að uppfylla ákvæði 2. gr. laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu og skilyrði laganna um skipulag náms og kennslu, aðstöðu og rekstur. Þetta felur m.a. í sér lýsingu á helstu áherslum í fræðslustarfsemi umsækjanda, námskrám og skipulagi náms, námsframboði og skilgreindum námslokum, náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimati o.fl. Enn fremur sérstöðu eða sérkennum starfseminnar og áætlaðri þörf fyrir hana svo og hvaða markhópi starfseminni er einkum ætlað að þjóna.

  • 3. Fyrirkomulag kennslu og námsmats

    Lýsing á fyrirkomulagi kennslu, kennsluaðferðum og námsmati (t.d. staðbundið nám, fjarnám, verklegt nám) sem beitt er hjá fræðsluaðilanum.

  • 4. Aðstaða

    Umsókn þarf að fylgja lýsing á aðstöðu, þ.e. húsnæði fræðsluaðila og búnaði, ásamt vottorðum frá yfirvöldum heilbrigðis- og brunamála og lýsingu á aðgengi fatlaðra eða annarri sérhæfðri aðstöðu sem starfsemin kann að krefjast.
     
    Varðandi vottun heilbrigðisyfirvalda skal leggja fram starfsleyfi og nýjustu niðurstöðu reglubundins eftirlits heilbrigðiseftirlits.
    Varðandi vottun slökkviliðs þarf að leggja fram jákvæða umsögn slökkviliðs um eldvarnir. Þetta á við um allt það húsnæði sem umsækjandi notar til reglubundinnar kennslustarfsemi.
     
    Gæta þarf þess að umsögn slökkviliðs sé innan við 6 mánaða gömul. Bent er á að það getur tekið talsvert langan tíma að uppfylla kröfur slökkviliðs og þarf því að sækja um umsögn slökkviliðs í tíma. 
    Eigandi og eða forráðamaður húsnæðisins þarf að sjá til þess að húsnæði uppfylli kröfur í samræmi við reglugerð 723/2017 um eldvarnir og eldvarnaeftirlit.
     

  • 5. Stjórnun

    Lýsing á stjórnun, m.a. skipurit, kjörin stjórn, stjórn daglegrar starfsemi, fagstjórn, fjármálastjórn o.þ.h.

  • 6. Menntun og reynsla stjórnenda

    Upplýsingar um menntun og reynslu stjórnenda.

  • 7. Kröfur varðandi kennslu og ráðgjöf

    Upplýsingar um kröfur til þeirra sem annast kennslu og ráðgjöf, þ.e. menntun þeirra og starfsreynslu.

  • 8. Fjárhagsmál

    Umsækjendum ber að fylla út excel skjalið „Yfirlit yfir fjárhag umsækjenda“ og word skjalið „Fjárhagsmálefni-Form og leiðbeiningar“ og láta fylgja umsókn. Finna má tengla í skjölin hér að neðan. Mikilvægt er að vanda til verka við útfyllingu þeirra.

    Að auki þurfa ársreikningar síðustu þriggja ára, rauntölur líðandi árs og rökstudd fjárhagsáætlun til næstu þriggja ára að fylgja umsókn. Gæta þarf þess að tölur í áætlunum séu samanburðarhæfar við tölur í ársreikningum.

    Út frá framangreindum gögnum er metið hvernig fjárhagslegri ábyrgð er háttað, hvernig fræðsluaðili fjármagnar starfsemi sína og hvernig fjárhagslegt rekstraröryggi starfseminnar er tryggt. Auk þess hvort trygging sé fyrir því að nemendur geti lokið námi sínu. Ef þurfa þykir er heimilt að krefjast bankatryggingar af fræðsluaðila.

    Tengill í excel skjal

    Tengill í word skjal

    Þegar aðili sem er að hefja starfsemi sækir um viðurkenningu þarf að sundurliða áætlanir um reksturinn sérstaklega vel. Þar sem fyrsta viðurkenning gildir jafnan í eitt ár þarf fjárhagsáætlun aðeins að ná yfir líðandi ár og næsta ár þar á eftir. Í stað ársreikninga eru send inn stofnskjöl, s.s. samþykktir, skipulagsskrá o.þ.h., auk staðfestingar á greiðslu stofnframlags/hlutafjár og skuldbindinga eigenda gagnvart umsækjanda. Fylla þarf fyrrgreind excel og word skjöl út að því marki sem mögulegt er.

  • 9. Yfirlýsing um upplýsingagjöf

    Með umsókn skal liggja fyrir yfirlýsing eigenda/stjórnar um að þeir/hún veiti Menntamálastofnun upplýsingar um starfsemi fræðsluaðila á hverjum tíma.

  • 10. Innra gæðakerfi og sjálfsmat

    Lýsing á innra gæðakerfi og sjálfsmati fræðsluaðila og að það fullnægi skilyrðum IV. kafla laga um framhaldsfræðslu um mat og eftirlit með gæðum.

  • 11. Námslok

    Lýsing á námslokum, hvaða viðurkenningu, réttindi eða prófheiti nemendur fá að námi loknu. Á hvaða hæfniþrepi námslokin eru staðsett og hvers konar staðfestingu (skírteini) nemendur fá að loknu námi.

  • 12. Nemendabókhald

    Lýsing á nemendabókhaldi, hvernig skráningu og upplýsingum um nám og námsferill nemenda er háttað. Enn fremur hvernig fræðsluaðili mun tryggja nemendum aðgang að upplýsingum um námsferil eftir að námi lýkur.

  • 13. Réttindi og skyldur og meðferð ágreiningsmála

    Upplýsingar um hvernig réttindi og skyldur nemenda eru skilgreind og að réttur þeirra sé tryggður í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Lýsing á meðferð ágreiningsmála hjá fræðsluaðila, leiðum sem nemendur og starfsmenn hafa til að leita réttar síns telji þeir á sér broti.. 

     

  • Viðurkenningar einkaskóla og staðfestingar þjónustusamninga – tölvupóstur á [email protected]