Lykilhæfni

Í námsmati í grunnskóla skal leggja mat á hæfni nemenda innan hvers námssviðs og á það við jafnt í bóklegu, verk- og listnámi. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla byggist lykilhæfni á grunnþáttum menntunar og áhersluþáttum grunnskólalaga.

Viðmið um mat á lykilhæfni eru sett fram í fimm liðum sem eru sameiginlegir öllum námssviðum: 

  • Hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega, skriflega og á annan hátt. Hæfni til að miðla þekkingu og leikni sinni og flytja mál sitt skýrt og áheyrilega og taka þátt í samræðum og rökræðum.
  • Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu. Hæfni nemenda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýninni hugsun og röksemdarfærslu.
  • Hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn.
  • Hæfni nemenda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt.
  • Hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu.

Það er mikilvægt að vinna með lykilhæfni í tengslum við öll námssvið grunnskólans og flétta hana inn í allt nám eins og lýst er í 18. kafla aðalnámskrár. Hins vegar er horfið frá því að lokaeinkunn í lykilhæfni komi fram á útskriftarskírteini við lok grunnskóla.