1. Forsíða
  2. Niðurstöður samræmdra könnunarprófa

Niðurstöður samræmdra könnunarprófa

Undanfarnar tvær vikur hafa grunnskólar kynnt niðurstöður samræmdra könnunarprófa fyrir nemendum í 9. og 10. bekk og foreldrum þeirra. Ýmsar spurningar hafa vaknað og hefur Menntamálastofnun veitt leiðbeiningar og brugðist við fyrirspurnum. Eins og vænta mátti þegar miklar breytingar eiga sér stað á námsmati með rafrænni fyrirlögn og nýjum hæfnieinkunnum hafa nokkur vandamál komið upp í framkvæmdinni.  Einnig var umfang prófanna mikið í þetta sinn en alls þreyttu um 8.000 nemendur í 9. og 10. bekk prófin.

Að mati Menntamálastofnunar hefur verið leyst úr vandamálum á viðunandi hátt og ættu grunnskólar að geta nýtt  sér niðurstöðurnar í samræmi við tilgang prófanna.

Vegna þeirrar gagnrýni sem aftur hefur komið fram á framkvæmd prófanna vill stofnunin taka fram eftirfarandi:

  1. Við undirbúning prófanna var haft samráð við fjölmarga hópa og aðila innan skólasamfélagsins. Haldnir voru 26 kynningar- og samráðsfundir víða um land og með fjarfundum, gerð voru myndbönd þar sem framkvæmd og niðurstöður voru skýrðar auk kynningarbréfa og tölvupósta. Birtar voru skýringar og lýsingar á prófunum á heimasíðu Menntamálastofnunar og Facebook síðunni „Innleiðing rafrænna prófa“. Að auki var framkvæmdahópur samræmdra könnunarprófa með tengilið í hverjum skóla. Fyrsta kynning á þessum breytingum fór fram á ráðstefnu hjá svæðafélögum Skólastjórafélags Íslands 4. febrúar 2016.

 

Hér fyrir neðan er listi yfir hluta af þeim aðilum sem Menntamálastofnun hafði samráð við:

  1. Samband íslenskra sveitarfélaga
  2. Kennarasamband Íslands
  3. Skólastjórafélag Íslands
  4. Félag grunnskólakennara
  5. Heimili og skóli
  6. Fræðsluskrifstofur
  7. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar
  8. Fulltrúar frá fræðsluskrifstofu Hafnarfjarðarbæjar
  9. Barnaheill
  10. Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis

 

  1. Prófin eru gerð með hæfniviðmið aðalnámskrár að leiðarljósi. Hæfniviðmiðin eru tengd spurningum sem eru á prófunum. Svör við spurningum á prófinu eru ekki gefin upp að öðru leyti en hvort þau voru rétt eða röng. Hins vegar er birt lýsing á prófspurningum ásamt sýnidæmi. Á heimasíðu Menntamálastofnunar eru skýringar og lýsingar á hvernig niðurstöðurnar birtast.

 

Fram hefur komið að erfitt kunni að vera að átta sig á muninum á raðeinkunn og hæfnieinkunn. Það er skiljanlegt, sérstaklega þar sem ekki er bein samsvörun milli þessara einkunna. Nánari skýringar á þessum mun er að finna á heimasíðu Menntamálastofnunar.

 

Í næstu viku mun Menntamálastofnun birta upplýsingar um heildarniðurstöður samræmdra könnunarprófa. 

skrifað 28. APR. 2017.